Væntanlegt

Opnunarsýning RCF

Útgáfudagur Viðburður 23.10.2015

Reykjavík Comedy Festival 2015

Opnunarsýning Reykjavík Comedy Festival fer fram í Silfurbergi í Hörpu 23. október kl. 20:00 og stendur til 22:15. Það er óhætt að segja að í ár verði opnunarsýningin með einstöku sniði. Hátíðina setja nefnilega einungis íslenskir grínistar. Bæði koma fram gamalreyndar og þjóðþekktar grínkempur ásamt hæfileikafólki sem hefur nýverið verið að slá í gegn.


Á opnunarsýningunni koma eftirtaldir fram, í þessari röð:

Björk Jakobsdóttir: Höfundur og aðalleikkona leikritsins Sellófan sem sló eftirminnilega í gegn hérlendis og víða í Evrópu. Björk hefur einnig skrifað og unnið gamanefni til fjölda ára; komið að fjölda gamanþátta, áramótaskaupum og ekki síst uppistandi þar sem hún gerir málefni kynjanna oft að viðfangsefni með íróníuna að vopni. 

Þorsteinn Guðmundsson: Hann sló í gegn í Fóstbræðrum og hefur komið fram sem uppistandari á ótal sviðum um allt land síðustu tvo áratugi - að minnsta kosti. Þorsteinn er svo góður í uppistandi að hann kennir það! 

Edda Björgvinsdóttir hefur grínast frammi fyrir alþjóð í bíói, sjónvarpi, á leiksviði, í uppistandi, á fyrirlestrum og í atvinnulífinu frá því seint á áttunda áratugnum. Hún hefur jafnframt samið efni fyrir flesta miðla á Íslandi og það má því með sanni segja að Edda sé einn reynslumesti grínisti landsins.  

Snjólaug Lúðvíksdóttir: Hún hóf uppistandsferilinn í London fyrir tveimur árum og hefur kitlað eina eða tvær hláturtaugar síðan.  

Helga Braga: Tók þátt í að skapa nýja grínöld á Íslandi með félögum sínum í Fóstbræðrum þar sem hún gerði karaktera á borð við Gyðu Sól og Brünhilde ódauðlega. Hún hefur síðan sinnt gríni á sviði sem í sjónvarpi, komið að fjölda áramótaskaupa og kvikmynda. 

Anna Þóra Björnsdóttir: Síðasta vetur fann Anna Þóra sína hillu í lífinu, hún söðlaði um og lærði uppistand hjá Þorsteini Guðmundssyni. Í ljós kom að hún er grínsti frá náttúrunnar hendi og hefur kolsvartan og hárbeittan húmor. 

Laddi: Landsmenn hafa hlegið með - og hlegið að - Ladda í áratugi. Hann er næstum því búinn að vera í bransanum frá því grínið varð til. Laddi er sannkölluð þjóðargersemi. 

Þær tvær (Vala Kristín og Júlíana Sara): Báðar eru nýútskrifaðar leikkonur, Vala Kristín úr Listaháskóla Íslands og Júlíana Sara úr breskum leiklistarskóla. Þær hafa svo sannarlega slegið í gegn í sjónvarpsþáttunum sínum síðustu mánuði og við eigum örugglega eftir að hlæja mjög mikið að þeim tveimur í framtíðinni! 

Ólafia Hrönn: Hún hefur skemmt landsmönnum með leik, söng og gríni síðan á níunda áratugnum, hefur slegið í gegn í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta og hefur ekkert fyrir því að græta menn úr hlátri. 

Eins og sjá má verður dagskrá kvöldsins mjög þétt og kraftmikil þar sem hvert atriði verður um tíu til fimmtán mínútna langt. Séríslenskt uppistand í hæsta gæðaflokki sem á vafalaust eftir að koma salunum til með að standa á öndinni úr hlátri á opnunarsýningu RCF í ár. 

Miðasala fer fram á Tix.is.


Hafðu samband

Hringdu í okkur

591 5100

Við svörum milli 09:00 og 17:00
alla virka daga.

Sendu fyrirspurn

Til að fyrirbyggja ruslpóst: